FLUG ER SKEMMTILEGT ... EN DÝRT!

Hvað er skemmtilegra en að geta flogið um eins og fuglinn fljúgandi?

Á sínum tíma í kringum 1990 átti ég þess kost að tengjast flugi. En þá bauðst mér að koma inn í 10 manna hluthafahóp sem var að vinna í því að kaupa og yfirtaka Leiguflug Sverris Þóroddssonar. Ég var ungur og vitlaus þá og greiddi eitthvað um 3 millur fyrir 15-20% hlut og stofnað var nýtt flugfélag sem fékk nafnið Leiguflug.

Auk þess að greiða hlutafé að fullu, þá vann ég launalaust í nokkur ár við að reyna að vinna þessu félagi brautagengi og sá meðal annars um öll kynningarmál, auglýsingar, bréfsefni og fl. fyrir þetta nýja flugfélag.

Því miður voru rekstrarskilyrði ekki góð á þessum tíma og þetta litla flugfélag var m.a. stórt pólitískt bitbein (hægt að skrifa heila bók um þann þátt) og svo kom virðisauki á eldsneyti, hár viðhalds- og launakostnaður og líklega það sem fór verst með félagið að það vildu allir hluthafar stjórna. En eitthvað gekk ekki upp í þessum flugrekstri og fór því svo að félagið gaf upp öndina og Ísleifur Ottesen yfirtók félagið. Að vísu tengdist ég því félagi aðeins en þó bara með þeim hætti að útbúa eitthvað af kynningarefni áfram fyrir hið nýja félag.

Með Leiguflugi var rekin flugskóli sem bar nafnið Flugmennt og er líklega það eina sem að ég fékk út úr þessu flugrekstrarævintýri mínu að ég lærði einkaflug hjá skólanum og má segja að ég búi enn að þeirri menntun í dag.

Hér má svo sjá eina af mörgum auglýsingum sem að ég útbjó og var ég sérstaklega ánægður með hugmyndina af býflugunni.

Auglýsing um flugkennslu fyrir flugskólann Flugmennt útbúin 1993


Á meðan ég var að læra, þá var að sjálfsögðu flogið út um allt land og þá má segja að ljósmyndadellan hafi byrjað fyrir alvöru (enda þurfti að taka myndir í allar auglýsingarnar). Ein af þekktari myndum frá þessum árum er þessi mynd hér frá Vestmannaeyjum og er hún jafnframt ein af fyrstu samsettu loftmyndunum sem að ég setti saman á þeim tíma og má segja að þar hafi mikið frumkvöðlastarf verið unnið

Á þessari mynd má vel sjá Heimaey og hvernig Eldfell og nýja hraunið þekur eyjuna (smellið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Önnur þekkt mynd sem að ég tók er þessi hér frá Vestfjörðum einnig frá svipuðum tíma

Vestfirðir úr lofti. Á myndinni má sjá Ísafjarðardjúp, Súgandafjörð og Önundarfjörð og Gölt fyrir miðri mynd (smellið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Einnig útbjó ég plakat og lítinn pésa eða bækling (enska, þýska, franska ...) fyrir Leiguflug sem virkaði mjög vel og fékk mikla dreifingu. Myndir fékk ég bæði frá Matz og svo frá Birni Rúrikssyni sem var að gefa út ljósmyndabækur á þeim tíma (Yfir Ísland) og má segja að þar hafi ég svo fengið áhuga á að fara út í svipaða útgáfu sjálfur. En ég var á þeim árum í þeirri þægilegu aðstöðu að vera að þjónusta bæði auglýsingastofur og prentiðnaðinn (prentvélarnar og tölvubúnað fyrir umbrot) og voru því hæg heimatökin að skella sér út í smá útgáfu sem endaði með útgáfu á 3 ljósmyndabókum.

Plakat unnið fyrir Leiguflug


Það flug sem ég stunda mest í dag er að fljúga og kenna á mótorsvifdreka (fis) og svo var svifdrekaflug stundað af kappi hér áður fyrr. En flugbakterían er víst eitthvað sem að maður losnar ekki svo auðveldlega við.

Kjartan
WWW.PHOTO.IS


mbl.is Mikið framboð er af flugtengdu námi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Aldrei séð mynd af Dýrafirðinum (mínum).

Helga Kristjánsdóttir, 25.9.2008 kl. 01:25

2 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Við reynum að bjarga því snarlega.

Kjartan Pétur Sigurðsson, 25.9.2008 kl. 05:46

3 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Hér er þessi fína mynd af Dýrafirði þar sem horft er út fjörðinn

http://www.photo.is/07/07/4/pages/kps07071080.html

Svo á ég líka mjög fínar myndir á filmu sem þarf þá að skanna inn, en það verður að bíða betri tíma.

Kjartan Pétur Sigurðsson, 25.9.2008 kl. 09:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband