Ég átti mín fyrstu skref í fótbolta á Blönduósi

Þegar ég var smá pjakkur, þá fór ég oft á Blönduós og heimsótti afa minn og alnafna Kjartan Pétursson.

Kynni mín af fótbolta hófust þar og fyrir tilviljun lenti ég óreyndur í marki þegar við þurftum að keppa á móti Skagaströnd og töpuðum stórt, 7-2 að mig minnir.

Líklega er þetta hin sálræna og djúpstæða ástæðan fyrir því að seinna meir hefur mér aldrei líkað vel við fótbolta.

Aftur á mót þá lærði ég skák á Blönduósi hjá einum þeim alskemmtilegasta manni sem bjó þar í næsta húsi þar sem afi bjó. Hann var eineygður og átti gamla VW bjöllu og fengum við krakkarnir stundum að sitja í. Man ég eftir einni ferðinni þegar hann tók úr sér gleraugað til að líta í aftursætið þar sem að við krakkarnir vorum til að athuga hvort að það væri nú ekki allt í góðu lagi.

Þegar við vorum að tefla, þá var hann vanur að spila rússneska kósakkamúsík af gömlum grammfón á fullum styrk og hundurinn sem hann átti spangólaði svo í takt við tónlistina. Hann tók alltaf drottninguna af taflborðinu til að jafna aðeins leikinn. En hann hafði verið skákmeistari norðurlands ef mig minnir rétt.

Hann dó svo stuttu seinna við veiðar á bát í Hópinu.

Afi átti heima í "Sandhúsinu" svo kallaða sem var bak við Hótelið á Blönduósi nánast alveg niður í fjöru og man ég vel eftir því að öldurnar gengu stundum alveg upp að húsvegnum.

En nú er Sandhúsið því miður horfið.

Staðurinn þar sem Sandhúsið var (klikkið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Við krakkarnir lékum okkur oft í þessu gamla fjárhúsi

Fjárhús (klikkið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Apótekarinn bjó í þessu húsi

Apótekarinn (klikkið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Húnfjörð bakari bjó í þessu húsi

Bakarinn (klikkið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Hér má sjá einn fyrsta húsmæðraskólann á landinu

Húsmæðraskólinn á Blönduósi (klikkið á mynd til að sjá fleiri myndir)


og svo er mjög flott Heimilisiðnaðarsafn þar sem rakin er textilsagan.

Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi (klikkið á mynd til að sjá fleiri myndir)




Kjartan
WWW.PHOTO.IS


mbl.is Smábæjarleikar á Blönduósi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Æðislegar myndir! Vegna samansafns skrítinna tilviljanna bjó ég á Blönduósi í tvö ár. Var frábær tími og þegar ég var að skoða myndirnar þínar leið mér eins og ég væri á staðnum. 

Þetta svæði þar sem afi þinn bjó er einn sá allra flottasti staður til að búa á! Göngutúrarnir mínir voru frekar einhæfir þarna. Lagði alltaf á stað ákveðin í að breyta gönguleiðinni en ég endaði alltaf þarna í fjörunni

Heiða B. Heiðars, 24.6.2007 kl. 17:33

2 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Staðurinn er magnaður.

Flott er að halda svo áfram út með ströndinni. Við félagarnir vorum vanir að labba alla leið yfir í land Hjaltabakka þar sem að við vorum með netalagnir. Netunum ýttum við svo út með spíru sem eru löng spýta jafnlöng netinu. Aðallega var veiddur silungur og stundum lentum við í mokfiskiríi og einn og einn lax kom í netin. Enda staðurinn mitt á milli Laxá á Ásum og Blöndu :)

Kjartan Pétur Sigurðsson, 24.6.2007 kl. 17:43

3 identicon

Ég heiti Sigrún Lind Hermannsdóttir og er 13 ára. Það var virkilega gaman að lesa þessa sögu þar sem þessi maður er afi minn, og hét Ari Hermannsson og ég hef heyrt svipaðar sögur af honum frá pabba mínum Hermanni Arasyni, ég á 2 systkini sem heita Elma Rún og er 11 ára og Ari Hermannsson sem er 8 ára  Það er alltaf gaman að heyra svona sögur þar sem að við þekktum hann aldrei, pabbi var aðeins 7 ára þegar hann dó.

Sigrún Lind Hermannsdóttir (IP-tala skráð) 24.6.2007 kl. 23:02

4 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Gaman að heyra frá þér Sigrún. Ég mundi nú alveg eftir nafninu á honum afa þínum og vildi svona kanna hvort að einhver myndi koma með áframhald á söguna. Ég bara kunni ekki við að nefna það ef að ég væri ekki að fara með rétt mál.

Ég man vel eftir því að þetta var ekki auðvelt fyrir ömmu þína með öll þessi börn þegar afi þinn dó. Mig minnir að afi þinn hafi unnið í bankanum hinu megin við ánna.

Svo að ég haldi áfram með söguna, þá fór ég oft með gömlum manni út á Þingeyrar þar sem flotta kirkjan er. Hann ók um á traktor og það er hugsanlegt að hann gæti hafa verið langafi þinn og þá líklega pabbi ömmu þinnar? En er þó ekki viss, ég man bara ekki nafnið á honum. Spurning hvort að þú reynir að finna út úr því fyrir mig?

En ég fór oft með honum á veiðar út á sandinn fyrir utan Þingeyrar til að eyða svartbak og kjóa. En hann var að reyna að koma upp æðavarpi á því svæði. Hann sá m.a. til þess að ég lærði nöfnin á öllum sveitabæjunum á leiðinni frá Þingeyrum til Blönduósar :)

Ég man að ég lék mér stundum við krakkanna í húsinu á móti sem hefur þá líklega verið pabbi þinn. Einnig man ég að ég suðaði um að fá að fara með út að Leysingjastöðum þegar slysið átti sér stað. En amma þín sagði nei og að ég gæti ekki komið með í þetta skiptið. Ég komst svo að því svo seinna hvað hafði gerst og skildi þá vel því ég hafði ekki fengið að fara með.

Kjartan

p.s. ég er víst af Blöndal ættinni og hugsanlega gætum við verið skyld! Afi minn var alltaf að benda á alla þarna á svæðinu og segja mér að ég væri skyldur þessum eða hinum.

Kjartan Pétur Sigurðsson, 24.6.2007 kl. 23:45

5 identicon

Sæll og blessaður Kjartan Ósköp þótti mér vænt um að lesa þetta með fyrstu skrefin í fótbolta og myndirnar flottar.  Gaman að sjá hesthúsið!  Ég heiti Þuríður Aradóttir.  Mamma kom til mín í kvöld (Þórunn Pétursdóttir) og sagði mér frá því að Sigrún frænka hefði lesið þetta og svarað þér.

Já, það er mikið rétt að þú varst oft að leika þér við okkur í næsta húsi.  Ég man vel eftir þér og þú varst með mér í bílnum þegar pabbi var að stríða okkur með augað. Það voru ekki ófá skiptin sem ég og þú vorum í kasti yfir því sem hann sagði og gerði Þér fannst reyndar allt fyndið sem hann sagði.  Afi þinn var nú líka ansi skemmtilegur og góður maður. Gamli maðurinn sem þú fórst oft með út á Þingeyrar var móðurafi minn Pétur Pétursson og voru þeir mjög góðir vinir afi þinn og hann.  Það er rétt munað hjá þér að faðir minn vann í bankanum. Mynni þitt er ansi gott.

Ég var með pabba í þessari síðustu ferð hans út að Leysingjastöðum. Nei það er rétt hjá þér að það var ekki auðvelt fyrir móður okkar að standa uppi ein með 4 börn (10, 8, 7 og 3ja ára) og sjálf rétt 31 árs gömul. Á þeim tíma var ekki áfallahjálp eða sálfræðingar sem fjölskyldan gat leitað til. En það get ég sagt þér að hún stóð sig eins og hetja og erum við afar þakklát og stolt af þeirri gömlu,heheheh

Ég var að koma frá Blönduósi í gær en þar var ég á ættarmóti sem var reyndar haldið að Húnavöllum.  Ættarmót Þórarins og Sigríðar frá Hjaltabakka sem er föðurætt mín.

Það eru orð að sönnu hjá Heiðu sem skrifaði hér að ofan að þetta sé fallegur staður til að búa á

Bestu kveðjur

Þuríður

Þuríður Guðrún Aradóttir (IP-tala skráð) 25.6.2007 kl. 23:25

6 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Sæl Þuríður og takk fyrir síðast þó svo að langt sé um liðið frá því að við sáumst síðast :)

Því miður hef ég ekki komist í að svara fyrr en nú. Ég er m.a. leiðsögumaður og var að ljúka 10 daga hringferð um landið með hóp af dönskum eldri borgurum. Í ferðinni hafði ég gaman að því að prófa að ræða um alla þá staði sem að ég tengdist persónulega og var m.a. litið við á Blönduósi (að vana) niður í fjöru og var ekki annað að sjá en að það færi vel í Danina.

Flott að fá söguna svona frá fyrstu hendi og magnað að minningarnar skuli vera svona ljóslifandi enn.

Þetta voru góðir tímar, fyrir krakka á mínum aldri, þarna á Blönduósi. Annars er maður er alltaf að rekast á einhvern sem er af svæðinu og þá er gaman að rifja upp þessa tíma og sérstaklega gaman að púsla saman svona minningarbrotunum smátt og smátt.

Afi og Pétur kenndu mér margt og er synd að krakkar í dag fái ekki að vera meira í sambandi við eldra fólk lengur. Nú eru krakkar aldir upp á barnaheimilum og eldra fólki komið fyrir á stofnunum.

Þetta með áfallahjálpina, þá eru deildar meiningar um slíka meðferð. Jafnvel talið betra að fólk fái að takast á við svona mál í rólegheitunum sjálft.

En annars takk fyrir flott svör.

Kveðja

Kjartan

Kjartan Pétur Sigurðsson, 4.7.2007 kl. 14:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband