Þessi er 7-8 ár að bráðna í Jökulsárlóninu

Ég var að koma úr ferð úr Jökulsárlóninu eða Breiðarmerkurlóninu fyrir nokkrum dögum og tók þá þessa mynd hér af einum stórum ísjaka sem leiðsögumaðurinn í bátsferðinni sagði að tæki 7-8 ár að bráðna:

Risaísjaki (klikkið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Það er mikið líf á svæðinu. Bæði af mannfólki og dýrum og frábært að koma þangað á góðum degi. Mikið er um sel og fugl og í lónið gengur mikið af fiski inn eins og loðnu og síld.

Hægt er að fara í siglingu um lónið á þar til gerðum hjólabátum sem hafa reynst vel á suðurströnd landsins þar sem er nær eingöngu sandur. Slíkir bátar þurfa ekki neina höfn, en á þeim er hægt að aka beint út í lónið.

En lónið er síbreytilegt og það er eins og verið sé að ferðast í gegnum listaverkasafn á leið sinni þar um. Jakar sem brotna frá ísjaðrinum eru á floti út um allt lón og fá á sig ýmsar kynjamyndir sem gaman er að skoða. Aðeins stendur um 10% af ísnum upp úr og oft má sjá jaka sem eru nýbúnir að snúa sér og fá þeir þá á sig fallegan djúpbláan lit.

Á miðri síðustu öld, þá var lítið lón og örstutt til sjávar. Síðan þá hefur lónið stækkað og sífellt streymir meira og meira af heitum sjó inn í lónið sem bræðir ísinn hraðar og hraðar.

Nú er svo komið að þarna er að myndast risastór fjörður sem er einn dýpsti fjörður landsins um 200 metra djúpur.

Ef svo heldur sem horfir, þá getur skapast sú hætta að hringvegurinn rofni og erfitt verði að brúa svona stóran fjörð í framtíðinni.

Meðalrennsli úr lóninu er um 300 rúmmetrar á sek.

Jökulgarðurinn sem skriðjökulinn hefur rutt upp á undan sér og skilið eftir þegar hann hefur hörfað verður fyrir miklum ágangi sjávar. Svæðið eyðist stöðugt og er nú svo komið að þar eru stöðugar framkvæmdir í gangi til að verja svæðið þar sem brúin stendur.

Kjartan
WWW.PHOTO.IS


mbl.is Bráðnandi ísjakar efla lífríki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband