DRANGEY - DRANGEYJARJARLINN - MYNDIR Hluti-I

Ég átti þess kost að skreppa út í Drangey núna í sumar og tók þá þessa myndaseríu í leiðinni.

Jón Eiríksson frá Fagranesi á Reykjaströnd, oft kallaður Drangeyjarjarlinn, stundar siglingar út í Drangey með farþega frá Sauðárkróki og frá Reykjum. Jón "Drangeyjarjarl" hefur í áraraðir siglt með ferðamenn út í Drangey og sagt þeim sögur af Gretti sterka og mörgu öðru merkilegu sem tengist sögu eyjarinnar. Hann hefur byggt upp Grettislaug og aðstöðu fyrir ferðamenn á Reykjaströndinni, fyrir utan þrotlausa vinnu við uppbyggingu og viðhald á aðstöðunni í Drangey. Hann varð ferðafrömuður ársins 2007 og er vel að titlinum komin.

Til er þjóðsaga um uppruna Drangeyjar að tvö nátttröll sem áttu heima í Hegranesi. Þau vildu leiða kú sína undir naut sem var að finna vestur á Ströndum. Lögðu þau af stað í ferðalagið og karlinn teymdi kúna en kerlingin gekk á eftir. Ekki voru þau komin langt út á fjörðinn þegar dagur ljómaði úr austri og urðu þau öll að steini.

EKerlingin er klettadrangur sem enn stendur sunnan eyjunnar og karlinn er annar drangur sem stóð norðan hennar og hrundi í jarðskjálfta árið 1755, en kýrin er eyjan sjálf, enda var hún löngum sannkölluð mjólkurkýr fyrir Skagfirðinga. Drangey (Pinnacle Island) in Iceland is a high, flat-topped island in Skagafjörður. (smellið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Það gengur oft mikið á þegar verið er að koma farþegum til og frá borði úti í Drangey og stundum verður frá að hverfa sökum mikils öldugangs við eyjuna. Aðkoman að Drangey er oft erfið og þarf að passa sig vel þegar stigið er í land.

Ekki kemur á óvart að Jón karlinn hafi náð að detta eins og einu sinni í sjóinn í öllum þeim fjölda ferða sem hann hefur farið út í eyjuna. Enda menn ekki alvöru sjómenn nema hafa m... í saltan sjó :) Pictures from Drangey island in Skagafjord in Iceland. (smellið á mynd til að sjá fleiri myndir)




http://www.photo.is/08/07/2/pages/kps07081360.html

Ein af mörgum skemmtilegum raunum í þessari ferð er að komast í land. Hér er báturinn búinn að lyfta sér upp og þarf stundum að bíða og sæta lagi áður en stokkið er í land

Allt fer þó vel að lokum og hópurinn heldur næst gangandi eða klifrandi upp á eyjuna. (smellið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Hér má svo sjá meira af myndum úr annarri ferð sem ég fór með danskan hóp út í Drangey árið 2005

http://www.photo.is/niels/pages/kps07050812.html

Það getur verið mikil raun fyrir lofthrædda að klifra upp á eyjuna Drangey. En þarna hefur verið vel staðið að öllu og er búð að leggja stiga á erfiðustu kafla leiðarinnar. Einnig eru keðjur og bönd sem hægt er að halda sér í (fyrir lofthrædda).

Eyjan er úr þverhníptu móbergi og ca 180 metrar á hæð og aðeins kleif á þessum einum stað sem nefnist Uppganga. (smellið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Margar þjóðsögur eru tengdar við Drangey. Ein sagan segir að Drangey hafi verið vígð af Guðmundur góða Arasyni sem var biskup á Hólum í Hjaltadal. Hér er búið að setja skjöld með kvæðinu "Faðir Vor, þú sem ert á himnum ..."

Staðurinn heitir Gvendaraltari.  Það er siður að hver og einn leggist þar á bæn áður en lengra er haldið, ef vel á að farnast (á þá líklega seinna meir í lífinu). (smellið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Þegar hópurinn var kominn upp á eyjuna, þá var gengið að Drangeyjarskála (byggður 1984). Þar fann sonur Jóns fugl sem hafði lokast inni í húsinu.

Hér er Sigurður Kjartansson að klappa skógarþrestinum (Turdus iliacus) sem fannst í skálanum á meðan bróðir hans Ómar Pétur Kjartansson fylgist spenntur með því sem fram fer. (smellið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Byrjað er á því að ganga á stað þar sem Grettiskofi er. Þar dvöldu tveir frægi útlagar, þeir Grettir og Illugi Ásmundarsynir, sem sagt er frá í Grettissögu. Talið er að þeir hafi dvalið í Drangey frá 1028 í þrjú ár.

Áður en Grettir kom í Drangey, var hún almenningur. Eftir að hann er drepinn (ca. 1030), þá kemst eyjan undir biskupsstólinn á Hólum í Hjaltadal. Eftir það höfðu Hólabiskupar mest yfirráð yfir eynni ásamt nytjar af fugli og fiskiafla. Grettir's Saga (Grettis saga Ásmundarsonar), written around 1300, tell how the famous outlaw Grettir and his younger brother Illugi, from Bjarg, survived for 3 years in Drangey. (smellið á mynd til að sjá fleiri myndir)




Nú er Drangeyjarjarlinn orðin frægur eins og Grettir "Sterki" Ásmundason. En Grettir er frægur fyrir sund sitt úr Drangey að Reykjum á Reykjaströnd þegar hann sótti eld sem hafði óvart slokknað hjá þeim bræðrum. Sund þetta þykir frækilegt afrek og hafa margir reynt að synda sömu leið og Grettir. Því miður tókst Jóni ekki eins vel upp og Gretti í þetta skiptið og vonum að honum hafi ekki orðið meint af volkinu.

Gott tækifæri gefst til dæmis til að skoða sjófugla í Drangey þar sem mikið er af svartfugli. Hefur eyjan verið sett á lista yfir mikilvæg fuglasvæði í Evrópu. Sagt er að veiðst hafi þar yfir 200 þúsund fuglar á einu vori í Drangey og eyjan oft nefnd forðabúr eða matarkista Skagfirðinga af þeim sökum.

Hér er horft fram af þar sem Hæringur norski hljóp í sjó fram, eftir að hann klifraði upp eyjuna og reyndi að drepa þá bræður Illuga og Grettir. Kerling blasir við úti á sjónum. Hér er líka einn af fáum stöðum þar sem hægt er að horfa beint niður í sjóinn með því að leggjast niður á bjargbrúnina. (smellið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Auk þess að Drangey sé fræg fyrir fugla- og eggjatekju sem þar hefur verið stunduð að þá er eyjan mjög grasgefin að ofan. Nóg er líka af áburðinum (fugladrit, gúanó) sem fuglinn skilur eftir sig. Öldum saman var fé flutt út í eyjuna til beitar.

Þegar Grettir og bróðir hans Illugi komu til Drangeyjar, þá drápu þeir sér til matar allt fé sem bændur úr sveitinni áttu. Að vísu fékk einn hrútur að lifa. Sá hét Hösmagi og var mannýgur. Þeir bræður Grettir og Illugi höfðu gaman að honum. Hrútur þessi var vanur að banka á hurðina hjá þeim bræðrum á hverjum morgni. Um hrútinn má m.a. lesa í kvæði eftir Jónas Hallgrímsson. (smellið á mynd til að sjá fleiri myndir)




Drangey

Tíbrá frá Tindastóli
titrar um rastir þrjár;
margt sér á miðjum firði
Mælifellshnjúkur blár.

Þar rís Drangey úr djúpi,
dunar af fuglasöng
bjargið, og báðum megin
beljandi hvalaþröng.

Einn gengur hrútur í eynni,
Illugi Bjargi frá
dapur situr daga langa
dauðvona bróður hjá.

Jónas Hallgrímsson

Ungur nemur, gamall temur, hér er Jón að kenna Sigurði Kjartanssyni hvernig á að bera sig að við að stjórna "SKIPINU" Nýi Víkingur SK 95

Jón Drangeyjarjarl og Sigurður að stýra skipinu á leið til hafnar eftir velheppnaða ferð til Drangeyjar. "Ég hef klifið Drangey og snert rætur Íslands!" er mottó Jóns Drangeyjarfara og er hægt að fá merkta boli með þessum texta á í lok ferðar. (smellið á mynd til að sjá fleiri myndir)




Sem leiðsögumaður, þá verð ég að segja að ferðir út í Drangey með Jóni og hans fjölskyldu eru með þeim skemmtilegri sem að ég hef farið í. Í einni og sömu ferðinni er hægt að upplifa margt eins og að fara í sund (ekki eins og Jón fór í) í Grettislaug, bátasiglingu, veiðar, fjallaklifur, fuglaskoðun, söguferð, gönguferð, selur, hvalur og þannig mætti lengi telja.

Frábær ferð í alla staði (seinni hluti ferðalýsingar væntanlegur von bráðar).

Kjartan
WWW.PHOTO.IS

p.s. Hluti-II kemur seinna.


mbl.is Jarlinn synti sitt Drangeyjarsund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: JEG

Vá hvað þetta hefur verið geggjuð ferð.  Magnaðar myndir.

Kveðja úr sveitinni Brúarlausu.

JEG, 12.8.2008 kl. 14:16

2 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Ferðin var flott og ein af þeim betri sem að ég hef farið í. Ég var að enda við að lesa fréttina um að búið væri að loka veitingaskálanum Brú í Hrútafirði. Við skulum vona að allir fái vinnu á nýja staðnum.

En annars eru nýlegar myndir af skálanum og nýju byggingarframkvæmdunum hér:

http://www.photo.is/08/07/4/index.html

og hér

http://www.photo.is/08/07/3/index_13.html

Kjartan Pétur Sigurðsson, 12.8.2008 kl. 14:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband