Víti við Öskju - myndir og kort

Við skulum vona að allt hafi farið vel í umræddu óhappi.

Víti við Öskjuvatn er mjög vinsæll baðstaður og er þekktur sprengigígur sem talin er hafa myndast við öfluga gufusprengingu. Gígurinn er lítill samanborin við stóra bróður sem Öskjuvatn er í.

Á meðan Víti er um 100 m breiður og um 60 m hár (frá brún), þá er Öskjuvatn 3.2 x 4.5 km á breidd og jafnframt dýpsta vatns landsins, um 224 m þar sem það er dýpst.! Askjan myndaðist í stórgosi árið 1875.

Svæðið hefur verið mjög virkt og síðasta gos var árið 1961. Rann þá hraunið Vikrahraun úr Vikraborgum. Í dag liggur vegur að hluta til yfir þetta úfna hraun að vinsælli gönguleið þar sem ferðamenn geta gengið í 30-40 mín inn að Víti og Öskjuvatni.

Hér má sjá Herðubreið og Öskjuvatni og er stærsta hraunflæmi í Evrópu fremst í myndinni, Ódáðahraun

Herðubreið, Öskjuvatni og Ódáðahraun (klikkið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Hér má sjá þekkta mynd frá mér af Öskjuvatni með litla gíginn Víti fremst í myndinni

Askja og Víti (klikkið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Það eru mikið um umbrot og óhöpp á Öskjusvæðinu þessa dagana. Ég lenti í því fyrir nokkrum dögum síðan að það brotnaði gormur sem heldur við framhásinguna að framan hjá mér og var þá útlitið orðið frekar svart. Með fullan bíl af fólki og eftir að aka nokkuð hundruð kílómetrar. Þar er Gæsavatnaleið meðtalin sem er ein af erfiðari fjallvegum landsins.

Hér eru tveir félagar sem létu sér lítið muna um að hjálpa til við að laga festingarnar fyrir brotin gorm á meðan ferðahópurinn labbaði inn að Víti á meðan. Eins og sjá má, þá var þoka yfir svæðinu og allt frekar drungalegt.

Hér er búið að tjakka upp bílinn og tína í burtu brotin af gorminum (klikkið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Karl Þórir Bjarnþórsson var á Bláum Unimoc E414 og Hallur Hilmarsson frá Blönduósi á rútu frá SBA-Norðurleið. Þeir létu sig litlu muna um að tína til þau tól og tæki til að bjarga því sem bjarga varð þarna á staðnum og vil ég þakka þeim báðum sérstaklega fyrir veitta aðstoð.

Hér má sjá Karl og Hall virða fyrir sér brotinn gorminn eftir að hafa tjakkað bílinn upp. Hér er Hallur að máta botnstykkið fyrir gorminn.

Þakka mátti fyrir að bremsuslangan yrði ekki fyrir skemmdum líka (klikkið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Botnsætinu fyrir gorminn var snúið 180° til að hægt væri að stinga brotna gormendanum inn í stýringuna aftur. Þetta átti að vísu eftir að koma mér í koll seinna inni á miðri Gæsavatnaleið, en þá náði hólkurinn sem samsláttargúmmíið er í að narta aðeins utan í botnplötuna og brjóta 2 bolta sem halda henni. En götin í gegnum plötuna eru ekki alveg fyrir miðju. Þá var ekki annað að gera en að tjakka bílinn upp aftur, taka gorminn alveg í burtu og svo festa hásinguna fasta við bílinn með strekkibandi og svo var hleypa vel úr dekki! Þannig var ekið alla leið til Reykjavíkur og komið þangað um kl. 4-5 sömu nótt. Á leiðinni voru farþegarnir skildir eftir inni á Hótel Hálandi við Hrauneyjafossvirkjun. Þröstur félagi minn kom á móti mér um nóttina og sá jafnframt um viðgerð á bílnum næsta dag.

Um nóttina náðist einnig að blogga og setja inn glænýjar myndir á netið af flugóhappi sem að ég náði myndum af í Nýadal á Sprengisandsleið sjá má myndirnar af flugvélinni HÉR http://photo.blog.is/blog/photo/entry/279376/

Næsta morgun á mánudeginum, frídegi verslunarmanna, var vaknað um kl. 7 og leitað á náðir nokkurra aðila sem hugsanlega ættu nýjan gorma. Þeir voru allir að vilja gerðir og opnuðu búðir sínar, en allt kom fyrir ekki og var ákveðið að gera bráðabirgðaviðgerð á sama máta og gert var inni í Öskju nema hvað núna var plötunni ekki snúið.

Haldið var síðan af stað upp úr hádegi sama dag og náð í ferðahópinn. Það náðist að klára Landmannalaugar, Fjallabak Nyrðra og Suðurströndina þann daginn og gist var að lokum á Hótel Rangá.

Á meðan fundust nýir gormar hjá Ljónstaðarbræðrum sem eru með aðstöðu við Selfoss og veru þeir teknir næsta dag um leið og farin var Gullni Hringurinn með hópinn.

Hér er flogið yfir Öskjuvatn og svo sjálfan Víti í september mánuði 2005.

Hér má sjá litlar mannverur á labbi á gígbarmi Vítis (klikkið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Ég var þarna á ferð fyrir nokkrum dögum og átti þá spjall við skálaverði í Dreka og fékk þá þær upplýsingar að það væri farið að hitna aftur í Víti. En segja má að það séu merki þess að að kvikan sem er þarna undir hlýtur að vera eitthvað nær yfirborðinu en áður. Sem dæmi, þá hefur ekki verið hægt að baða sig í Gjánni við Mývatn vegna þess að jarðvatnið sem rennur í gegnum svæðið hefur hitnað svo mikið eftir síðasta Kröfluævintýri.

Skála Ferðafélags Akureyrar í Dreka. Þar gista margir ferðamenn sem eiga leið sína um Öskjusvæðið. Í dag er öll aðstaða þarna orðin allt önnur en áður var.

Gamli skálin hægra megin og sá nýi fyrir miðju og salernis- og sturtuaðstaða til vinstri (klikkið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Hér má svo sjá skála jarðvísindamanna sem fáir vita af en hann er rétt norðan við skála Ferðafélags Akureyrar í Dreka.

Skáli jarðvísindamanna við Öskju (klikkið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Kort af Öskjusvæðinu. Þar má sjá Víti þar sem slysið átti sér stað.

Askja, Víti og Dreki (klikkið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Og til að bæta smá varnarorðum við hér í lokin fyrir þá sem stefna á að baða sig í Víti, að þá er töluvert bratt þar sem fara þarf niður. Eftir miklar rigningar, þá getur leirinn sem er yfir öllu svæðinu fljótt orðið eitt drullusvað og því mjög sleipt þar sem fara þarf niður og erfitt getur reynst að stoppa ef einhverjum skrikar fótur.

Annað er að þarna getur ríkt vetrarveður á skömmum tíma og jafnvel á miðju sumri. En það var jafnfallin snjór um 5-10 cm þykkur og þoka yfir svæðinu þegar ég var þarna fyrir um 2-3 vikum síðan! Því er nauðsynlegt að vera með regn- og vindheldan fatnað á þessari leið. En að öðru leiti er svæðið vel merkt.

Hér er danskur ferðamaður á besta aldri sem féll í drulluna við Víti og var takmarkið hjá honum að komast í bað á þessum fræga stað, hvað sem tautaði og raulaði!

Hér er staðið á sleipum kantinum við Víti í íslensku slagveðri og erfitt getur verið að þurfa að hætta við að fara í bað eftir þessa löngu og ströngu ferð til íslands (klikkið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Hér er það sem þetta snýst svo allt um, en það er að komast í bað í Víti.

Það skiptir litlu þó svo að maður lykti af brennisteini í nokkra daga á eftir. Upplifunin er stórkostleg. Þetta er eins og að vera í stórum suðupotti hjá mannætum í Afríku þar sem eldurinn krauma undir og heldur vatninu heitu! (klikkið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Ferðamenn koma til Íslands til að UPPLIFA en "Vítin" eru til þess að varast þau!

Kjartan
WWW.PHOTO.IS

mbl.is Slösuð kona komin til Egilsstaða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband