9.6.2007 | 21:43
Þetta er allt stór spurning
Því ekki að malbika bæði Kjöl og Sprengisand?
Hafa allar stofnleiðir góðar og leggja svo áherslur á ýmsar sérleiðir og búa jafnvel til nýjar og spennandi leiðir að stöðum sem aðeins örfáir hafa fengið að njóta fram að þessu.
Þannig mætti gefa fólki sem aldrei hefur fengið að komast inn á marga af leyndustu stöðum landsins tækifæri til að njóta þeirra líka.
Spurning um að kortleggja t.d. 100 mjög flotta staði á Íslandi sem eru með einhverja sérstöðu varðandi, náttúru, jarðfræði, sögu, dýralíf m.m. og vinna síðan skipulega að því að bæta aðgengi að t.d. 50 þeirra og skapa skynsamlega hring tengingu á milli þeirra.
Staðreyndin er að ferðamönnum til landsins fer fjölgandi og íslendingar eru farnir að fara í síauknu mæli inn á hálendið.
Því ekki að koma með tillögur að nýjum leiðum og reyna að finna nýja staði og dreifa aðeins álaginu frá þeim stöðum sem ALLIR eru að fara á.
Gaman væri að geta farið:
1) Hringferð um Langjökul á vegi þar sem ekið er með norðvestur hlið jökulsins með viðkomu á Hveravöllum. Hér er spurning hvort hægt væri að aka upp Flosaskarð á milli Eiríksjökuls og Langjökuls. Einnig gæti verið magnað að aka leið um Þórisdal þar sem komið væri niður í Skunkaríki. Það vantar 4x4 leið nálægt Reykjavík í anda leiðarinnar upp í Jöklasel í Vatnajökli. Sú leið er eins sú magnaðasta á Íslandi.
2) Hringleið um Skjaldbreið og spurning með veg upp á topp.
3) Hringleið um Kerlingarfjöll með möguleika á að aka niður með Þjórsá að vestan verðu. Einnig mætti aka niður í Hreppa frá Kerlingarfjöllum þar sem hægt væri að fara meðfram einu fallegasta gljúfri landsins sem er í Stóru Laxá.
4) Hringleið um Botnsúlurnar með þægilegu aðgengi að Glym, hæsta fossi landsins. Gæti verið stutt og skemmtileg dagleið fyrir 4x4 ferðamenn frá Reykjavík.
5) Leið út botni Hvalfjarðar inn á Uxahryggjarleið
6) Laga gömlu leiðina á milli Skálafells og Esju upp frá Mosfelli
7) Laga leiðina yfir Úlfarsfellið. Það mættu vera 2 leiðir upp á fjallið að sunnanverðu. Ein 4x4 leið og svo góður vegur fyrir rútur með plani uppi. Einn fallegasti útsýnisstaður í nágrenni Reykjavíkur.
8) Nú er hægt að aka upp á Hengilinn þar sem nýju borholurnar eru og hér ætti Orkuveitan að vera með eina borholu sem fengi að blása fyrir ferðamenn með miklum látum mætti útfæra sem einskonar hljóðlistaverk. Svo mætti halda áfram með þessa leið uppi á fjallinu með möguleika á að aka niður á 1000 vatna leiðina. Svo er möguleiki á heitum laugum á leiðinni. Spurning um að auka aðgengi efst í Hveradalinn sem liggur upp af Hveragerði. Hér eru miklir möguleikar.
9) Möguleiki er á nokkrum skemmtilegum leiðum yfir Skarðsheiðina. Nú þegar er mögnuð leið þar upp.
10) Vantar að geta ekið frá Bláfjallasvæðinu suður eftir og líka upp á fjöllin og þaðan niður í Jósepsdal.
11) Spurning með leið frá Lyngdalsheiðinni inn að sunnanverðu Hlöðufelli og þaðan inn á Haukadal. Eða einhverskonar 4x4 hjáleið á Gullna Hringnum sem myndi henta vel fyrir hvataferðir. Þyrfti að vera brattur hlykkjóttur vegur, keyra yfir á eða í árfarvegi eins og á Fjallabaki. Eitthvað þarf að gera í staðin ef það á að leggja niður eina ómalbikaða vegaspottann sem ferðamenn fá að upplifa á vinasælustu ferðamannaleið landsins.
12) Hringleið um Drangajökul (þessi var nú sögð til að æsa upp alhörðustu náttúruverndarsinnana :)
13) Hringleið um Langanes eða bæta aðgengi að suðurhlutanum í formi einhverskonar hringleiðar.
14) Hringleið um Kleifarvatn
15) Opna hringleið með ströndinni milli Sandgerðis og Hafnar. Ótrúlegt að það skuli ekki vera fyrir löngu búið!
16) Leið yfir Reykjanesið um Keilir. Möguleiki á mjög skemmtilegri 4x4 leið frá Reykjavík fyrir ferðamenn. Hér er margt að sjá og margar skemmtilegar gönguleiðir á svæðinu.
17) Spurning með að geta ekið áfram upp úr Loðmundarfirði fyrir austan og verið þannig með möguleika á hringleið á því svæði.
18) Í dag er aðeins göngufólk sem fær að sjá staði eins Lónsöræfin. Tröllakrókar er magnaður staður en aðeins á færi örfárra að fá að sjá.
19) Opna mætti betur svæðið fyrir norðan eins og Flateyjardal. Og í raun eru til slóðar á mörgum af þessum stöðum eins og skemmtileg hringleið upp úr Fnjóskadal.
20) Opna og laga leiðina frá Öskju inn á leiðina sem fer yfir Ódáðarhraun ....
Svona er hægt að halda lengi áfram.
Það má leggja stór landsvæði undir vatn, allt í nafni atvinnuuppbyggingar. Á sama tíma má ekki leggja einhverja saklausa vegaslóða sem myndu geta auðveldað mjög aðgengi ferðamanna að ýmsum áhugaverðum stöðum.
Ef það er markmið að auka ferðamannastraum til landsins, þá verður að auka vöruúrvalið líka.
Ekki er endalaust hægt að leggja bara áherslu á Gullna Hringinn og Bláa Lónið út frá Reykjavík, heldur verður að vera einhver heilstæð stefna í því að búa til nýjar leiðir frá Reykjavík þar sem sérhæfðir bílar, búnaður, þjónusta og fl. nýtist sem best hjá þeim aðilum sem standa í slíkum rekstri.
Flestar þær leiðir sem ferðamenn eru að fara í dag, eru að grunninum til leiðir sem lagðar voru hér áður fyrr af illri nauðsyn svo að fólk gæti komist á milli staða. Margar af þeim leiðum hafa oft á tíðum ekkert með ferðamennsku að gera þar sem verið er að huga að skemmtilegum leiðum eða auðvelda aðgengi að mörgum af okkar fallegustu náttúruperlum. Oft er það tilviljunum háð að þeir staðir sem stoppað er við með ferðamenn eru við þjóðveginn og stundum þarf ekki nema að taka á sig smá krók til að sjá eitthvað sem flestir keyra fram hjá á ferð sinni um landið.
Er ekki spurning um að hanna nokkrar nýjar og flottar ferðamannaleiðir?
Kjartan
p.s. það má þegar finna slóða á sumum af þessum leiðum
Kjalvegur verði ekki malbikaður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.