Kjartan Gunnarsson og fjölskylda eru þá ekki enn flutt búferlum á Rauðasand :)

Rauðisandur - Náttúran, dýralífið og mannfólkið á staðnum



Hér flýgur einn nýr furðufugl í lágflugi eftir ströndinni á Rauðasandi.

Fis TF-133 Kjartans Sigurðssonar í lágflugi eftir Rauðasandi (smellið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Hópur fisflugmanna var á ferð um Vestfirðina fyrir nokkrum dögum og má sjá hér kort með GPS ferli sem sýnir lágflug eftir Rauðasandi ásamt hvar var lent við bæinn Stakkar. Þar var spjallað við heimamenn og gengið frá því að fá að koma í gæs aftur að hausti. En við félagarnir Nonni kokkur fengum að veiða hjá óðalsbóndanum Sigurði í fyrra með góðum árangri.

Á kortinu má sjá nákvæmt ferli sem fisið flaug eftir á leið sinni um Rauðasand

Hér má sjá kort með GPS feril eftir láflugi á Rauðasandi ásamt því hvar var lent og flogin hringflug yfir selnum á svæðinu (smellið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Þegar flogið var lengra inn eftir sandinum, þá mátti sjá torfu af óvenju stórum dýrum syndandi og sólandi sig í ósnum. Þvílíkt og annað eins magn, ekki af fiskitorfu, heldur sel!

Þetta var ótrúleg sýn og ekki skal undra staðsetningin, en gjöful fiskimið eru skammt undan Rauðasandi

Mikið magn af sel í fjörunni og ósnum við Rauðasand (smellið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Hér má sjá hvernig sandurinn er formaður á fjölbreytilegan máta.

Spor í sandi, en eftir hvað? (smellið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Þó svo að sveitin sé fámenn, þá er sagan og mannlífsflóran þarna mjög merkileg. En þarna býr merkilegt samansafn af fólki. Fyrst til söguna ber að nefna nafna minn Kjartan Gunnarsson varaformaður í stjórn Landsbankans og fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins. Kona hans, Sigríður Ásdís Snævarr sendiherra er 55 ára gömul og ný orðin móði (5. júlí. 2007). Hún er elst íslenskra kvenna til að ala barn svo vitað sé. Spurning hvort að Kári hafi haft eitthvað eitthvað með hönd í bagga til að tryggja hin réttu gen sveinbarnsins? En til hamingju með erfingjann Sigríður og Kjartan.

Kjartan og frú láta sig litlu muna að kaupa nokkrar jarðir á Rauðasandi. En kirkjujörðin Saurbær á Rauðasandi er nú í þeirra umsjón ásamt gömlu uppgerðu fjárhúsi og kaffihúsi sem byggt hefur verið upp af miklum myndarskap.

Hér má svo sjá nýuppgerða Saurbæjarkirkju

Saurbæjarkirkja á Rauðasandi (smellið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Hér er lítið kaffihús í umsjón þeirra hjóna og er að heyra að það sé vel sótt af ferðamönnum.

Kaffihús á Rauðasandi (smellið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Öfugt við Kjartan og Sigríði, þá búa hjón á þar næsta bæ sem eru í yngri kantinum. En þau eru að stíga sín fyrstu skref í búskap og er ekki annað að heyra en að það gangi bara vel.

Hér er Jón Sveinsson kokkur að sýna Sigurði bónda hvernig á að verka gæs sem honum áskotnaðist fyrir öll liðlegheitin gagnvart okkur veiðifélögunum

Sigurður bóndi á Stekkjum fylgist með aðförum Jóns Sveinssonar við gæsaverkunina (smellið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Okkur Styrmi munaði ekki mikið um að lenda á túninu hjá þeim feðgum á Stekkjum. Ekki var annað að sjá en að Sigurður bóndi myndi vel eftir gæsaveiðimanninum frá síðasta ári.

Hér brosir Sigurður bóndi allan hringinn af gleði. Það er ekki daglega sem lenda tvö fis í túnfætinum hjá honum til að heilsa upp á hann.

Sigurður bóndi tekur vel á móti gestum ásamt föður sínum (smellið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Hvaðan í ósköpunum koma þessir ótrúlega fallegu litir? Hér liðast áin iðagrænn í gegnum gullinn sandinn á leið sinni í gegnum ósinn til sjávar á Rauðasandi. Litadýrðin er ótrúleg. Margur málarinn myndi gjarnan vilja ná í þessa litarsamsetningu í málvekum sínum.

Litirnir í landslaginu geta stundum verið alveg ótrúlega fallegir eins og sjá má á þessari mynd. Náttúran getur oft verið á við flottasta málverk.

Bæjaroddi, Bæjarvaðall, Hafnarvogur, Torfavogur, Rifshaus, Bæjarós, Melanesrif (smellið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Svo við höldum áfram að telja upp þá sem búa á Rauðasandi, þá má ekki gleyma hjólastólabóndanum fræga Ástþóri Skúlasyni frá Melanesi. En hann lenti í slysi þegar hann var að aka einu leiðina niður á Rauðasand sem er brattur og hættulegur vegur sem liggur niður Bjarnagötudal.

Þrátt fyrir fötlun sína, þá nær hann að sinna öllum helstu landbúnaðarstörfum. Hann hefur t.d. látið sérútbúa traktor með hjólastólalyftu svo að hann geti sinnt sínum störfum betur!

Hér býr Ástþór Skúlason á bænum Melanesi ásamt fjölskyldu (smellið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Margt fleira væri gaman að nefna sem tengist Rauðasandi eins og Sjöundá sem er afskekkt eyðibýli. Jörðin fór í eyði 1921. Bærinn er sagður draga nafn sitt af sjö ám, flestum litlum, sem falla til sjávar á Rauðasandi. Bærinn stóð við innstu ána, í bröttu og þýfðu túni. Neðan við bæinn heitir Bæjarvík þar sem lending var. Beitiland er gott á dalnum og í hlíðinni.

Á Sjöundá gerðust þeir hörmulegu atburðir árið 1802 að ábúendurnir, þau Bjarni Bjarnason og Steinunn Sveinsdóttir, myrtu maka sína, Guðrúnu Egilsdóttur og Jón Þorgrímsson. Hlutu þau bæði dauðadóm fyrir. Þessa atburði gerði Gunnar Gunnarsson rithöfundur fræga að nýju í sögu sinni Svartfugl.

Hér má sjá rústir af bænum Sjöundá úr lofti

Sjöundá úr lofti (smellið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Kjartan
WWW.PHOTO.IS


mbl.is Jakob Valgeir Flosason greiðir hæstu álagninguna á Vestfjörðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðni Þór Björgvinsson

Mikið rosalega er þetta flott svæði og flottar myndir hjá þér. Þið hafið fengið ótrúlega gott veður.

Guðni Þór Björgvinsson, 31.7.2007 kl. 10:55

2 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Veðrið var "MAGNAÐ" á Vestfjörðum þennan dag þó svo að veðurútlitið væri ekki gott í upphafi ferðar. Það munaði litlu að við félagarnir á sex fisum blésum ferðina af því við ætluðum ekki að komast yfir Holtavörðuheiðina snemma morguns þennan sama dag.

Ég náði að brjótast í gegn með því að fljúga "On-Top" yfir Holtavörðuheiðina og komast niður í gegnum gat við Búðardal. Eftir það opnaðist öll Barðaströndin. Lent var í Króksfjarðarnesi á meðan beðir var eftir restinni af hópnum og svo flogið þaðan beint á Ísafjörð.

Það er ekkert grín að fljúga innan um þessi háu fjöll og djúpu dali þarna á Vestfjörðunum. Það er ekki laust við að maður hafi fundið sig hálf máttlítinn gagnvart þessari stórkostlegu náttúru sem þarna er að finna.

Þegar ég hef tíma, þá mun ég með hjálp góðra manna koma næst með góða lýsingu á fluginu með fram Látrabjargi!

Þennan dag var ekki hægt að fljúga norður á Strandir vegna vinda og skýja svo planinu var breitt. Þrátt fyrir styttingu á ferðinni, þá varð heildartími þessa skemmtilega ferðalags um 16 kl.st.

Kjartan

Kjartan Pétur Sigurðsson, 31.7.2007 kl. 11:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband