Hér koma svo myndir af umræddu svæði - Fimmvörðuháls

Fólk sem er að labba Fimmvörðuháls getur auðveldlega lent í ýmsum villum sérstaklega þegar verið er að koma niður Þórsmerkurmegin.

Til að fólk átti sig betur á aðstæðum þarna, þá má skoða myndir sem að ég tók á þessari leið þegar ég var á leið yfir Fimmvörðuháls sem gönguleiðsögumaður með hóp af fólki á síðasta ári.

Gönguleiðin liggur frá Skógum yfir í Þórsmörk og er um 22 km og er áætlaður göngutími um 9-12 klst., lóðrétt hækkun/lækkun 1000m.

Leiðin er varasöm sakir snöggra breytinga sem geta orðið á veðri á hvaða árstíma sem er. Því valdi ég m.a. að víxla ferðadögum í ferðaáætlun sem búið var að gera og skaust þarna yfir með hóp á milli "lægða".

Á leiðinni eru tveir skálar, annar í eigu Útivistar og svo "Fúkki" sem nýlega komst í eigu Ferðafélags Íslands. Sá skáli var áður í eigu Eyfellinga.

Svæðið sem um ræðir má sjá á næstu mynd og heitir Morinsheiði.

Gengið er út á þennan klett sem er með hrikalegu þverhníptu klettabelti nánast allan hringinn. Þaðan er gríðarlegt útsýnið yfir allt Þórsmerkursvæðið.

Venjan er að ganga út á þetta klettabelti áður en gengið er aftur til baka þar sem hægt er að komast niður í Þórsmörk eftir einstigi í bröttu klettabelti þar sem komið er niður í Bása á Goðalandi.

Til að komast út á þennan höfða, þá þarf að þræða einstigi sem nefnist Heljarkambur. Kamburinn er með þverhnípi á báðar hliðar og er þetta svæði allt mjög varasamt fyrir lofthrædda og óvana og því eins gott að fara varlega.

Morinsheiði. Sjá má slóðann sem liggur út að brún (klikkið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Áður en komið er að Morinsheiði, þá þarf að fara niður brattar skriður sem geta verið með lausu grjóti og ef komið er þarna að snemma að vori, þá er líklegt að snjór sé yfir svæðinu eins og sjá má hér og því nauðsynlegt að vera vel "skóaður" en svona hjarn getur verið harðfenni sem auðvelt er að renna af stað niður eftir og er þá voðin vís því á einum stað tekur við snarbratt klettabelti (hér er gott að hafa með öryggislínu og búnað til að ganga á ís).

Íshjarn (klikkið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Öryggiskeðju hefur verið komið fyrir þar sem krækja þarf fyrir klettabelti og er þar til hliðar mjög brattar skriður sem ber að varast.

Öryggiskeðja (klikkið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Hér er einn sem "frís" í annað skiptið á þessari leið. En á þessum kafla var öryggiskeðjan grafin í snjó og ekkert nema þverhnípið fyrir neðan. Ekki var annað að gera en ræða rólega og yfirvegað við viðkomandi og allt fór vel að lokum. Hans stærsta vandamál í ferðinni voru lélegir skór.

Einn frosinn! (klikkið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Hér er svo haldið áfram niður

Hópur nálgast Heljarkamb (klikkið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Hér er svo "Heljarkambur" með brattar hlíðar á báða vegu!

Heljarkambur (klikkið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Leiðin ofan af Morinsheiði getur virkað á suma hrikalega á köflum og líklega er það svæðið sem fólkið hefur átt í erfiðleikum með. Nema að það hafi reynt að fara niður rétt eftir að komið er yfir Heljarkamb! En á eftirfarandi mynd má sjá slóðann sem er skorin í hlíðina og liggur um Kattahryggi og svo þaðan niður í Goðaland þar sem Básar eru og skáli Útivistar.

Slóðinn niður í Goðaland (klikkið á mynd til að sjá fleiri myndir)


En þetta virðist vera eini staðurinn þar sem fallið geta skriður á slóðann. En það er hægt að fara niður á öðrum stað en þar niður var mjög bratt og gæt hugsast að hópurinn hafi lent í sjálfheldu þar.

Hér er svo hryggurinn illræmdi "Kattahryggur" einstigi sem margir óttast (leiðrétt)!

Kattahryggur (klikkið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Ég mæli með, fyrir alla sem hafa heilsu til, að ganga Fimmvörðuháls. Þetta er ein flottasta gönguleið sem að ég hef farið. Sunnan megin þar sem gengið er upp með Skógaá, má sjá tugi fossa hver öðrum fegurri. Á hábungunni er farið yfir jökul af hluta til og þegar komið er yfir Þórsmerkurmegin, þá tekur við hrikalegt fjalla- og klettalandslag eins og sjá má á myndunum.

Og í lokin, þá þarf að vara fólk við að vera vel búið í svona ferð og kynna sér vel veður áður en lagt er af stað. En hægt er að nefna nokkur alvarleg óhöpp og slys sem orðið hafa á þessari leið. Auðvelt er að lenda í svarta þoku, slagveðri eða snjóbyl með stuttum fyrirvara á þessari leið.

Líklega er ein ódýrasta líftryggingin í svona ferðum að fjárfesta í litlu GPS tæki og þá með korti og jafnvel innbyggðum áttavita. Gott er að vera búinn að setja inn leiðina í tækið áður en haldið er af stað og svo þarf líka að kunna á græjurnar!

Hér má sjá upplýsingar á leiðinni um fólk sem varð úti á hálsinum.

Minnisvarði (klikkið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Kjartan
WWW.PHOTO.IS


mbl.is Ferðafólki bjargað heilu á höldnu í Þórsmörk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég kemst ekki hjá því að gera athugasemd við þennan ágæta pistil hjá Kjartani um gönguleiðina yfir Fimmvörðuháls. Í henni eru þó nokkrar villur sem verður hreinlega að leiðrétta. Í fyrsta lagi myndin í greininni sem sögð er af Kattarhryggjum er ekki af þeim heldur af Heljarkambi. Kattarhryggir eru mun nær Básum. Í öðru lagi: Þegar komið er yfir Heljarkamb gengur maður yfir Morinsheiði. Þegar komið er niður á Morinsheiði blasir fjallið Útigönguhöfði við á vinstri hönd. Ekki getur talist rétt að samsama þessa staði eins og Kjartan gerir. Á árum áður mun hafa tíðkast að ganga á Útigönguhöfða frá Morinsheiði en sú gönguleið er orðin varasöm og runnið úr henni, eins og reyndar á við um margar gamlar gönguleiðir á þessu svæði. Algengasta gönguleið á Útigönguhöfða hefst við skála Útivistar í Básum.

Halldór Bj.

Halldór Björnsson (IP-tala skráð) 8.7.2007 kl. 11:40

2 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Takk fyrir. Var að vinna þetta kl. 6 í morgun og ekki alveg vaknaður. Ég laga þetta við fyrsta tækifæri. Er með myndir af Kattahrygg hér:

http://www.photo.is/06/06/4/pages/kps06061381.html

Kjartan

Kjartan Pétur Sigurðsson, 8.7.2007 kl. 12:00

3 identicon

Sæll Kjartan,

gaman að sjá síðuna hjá þér, kom í gegnum touristguide.is.

Gekk einmitt yfir Fimmvörðuháls á Jónsmessunótt, í fyrsta sinn frá Skógum og fannst auðveldara að ganga Kattarhryggina þeim megin frá heldur en frá Goðalandi. Bröttu snjóþöktu skriðurnar áður en komið er að Heljarkambi heitir Brattafönn og þar renndum við okkur niður á rassinum enda snjórinn fínn til þess (þá). Annars skilst mér að fólkið hafi lent í sjálfheldu í Hvannárgili sem gengið er niður í af Morinsheiði, liggur sunnar og er brattari og meira krefjandi leið en sú hefðbundna að því mér skilst, hef ekki enn gengið hana.

Ha de bra með ósk um gott ferðasumar, Addý

Addý (IP-tala skráð) 8.7.2007 kl. 15:18

4 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Sæl og gaman að sjá þig hér á blogginu og til hamingju með að vera búin að vígja þessa leið.

En annars man ég að þegar ég var að koma niður Bröttufönn með hópinn að þá var ákveðið að ganga fram á klettanef til austurs til að fá að njóta þess gríðarlegs útsýnis sem þar er.

Síðan urðum við að fikra okkur þaðan með því að skáskjóta okkur yfir fönnina og þurftum ég þá að útbúa spor í hana fyrir hópinn. Ég verð að viðurkenna að það var ekki mjög gaman að leiða hópinn þar yfir því að það var þverhnípi sem tók við af þessari fönn og mátti því lítið út af bera. Þetta er allavega ekki þar sem ætti að renna sér á rassinum niður :)

En ég hef haft de vældig bra og var að koma úr skemmtilegri ferð úr Kerlingafjöllum og frá Hveravöllum þar sem boðið var upp á allan pakkann fyrir 10 manna "mjög svo skrautlegan" hóp. En einn úr hópnum var að fara að gifta sig.

Kveðja Kjartan

Kjartan Pétur Sigurðsson, 9.7.2007 kl. 07:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband