HVERNIG LINSU Á AÐ VELJA FYRIR MYNDAVÉLINA?

Ég fékk fyrirspurn frá tveimur félögum varðandi linsukaup fyrir stuttu. Svo var Ester bloggvinkona eitthvað að spyrja mig líka út í hvaða linsur ég notaði.

Félagar mínir voru að spá í tvær linsur. Tokina AF 11-16mm F/2.8 og Sigma 18-50 F/2.8 en þeir eiga Canon EOS Rebel XTi og ef mig minnir Canon 400D sem eru báðar með breytistuðul x1.6 fyrir linsurnar.

Kaup á góðri linsu er flókið mál og háð mörgum atriðum. Í dag er til fullt af flottum og góðum linsum.  Yfirleitt standa upp úr þessir stóru framleiðendur eins og Nikon og Canon hvað 35mm SLR-vélarnar varðar.

Þeir hafa framleitt heilan hafsjó af linsum sem eru bæði góðar og slæmar.

Síðan hafa Sigma, Tokina, Tamron og fl. komið á eftir og framleitt eftirlíkingar sem eru allt frá því að vera súper góðar og stundum jafnvel betri en "orginal" linsurnar sem kosta yfirleitt töluvert meira. Þeir smíða oft sömu linsuna með mismunandi festingum fyrir mismyndandi myndavélaframleiðendur.

1) Reglan er sú að fastar linsur eru mun skarpari og betri en zoom linsur. En í dag er tæknin orðin það góð að það eru jafnvel að koma linsur á markaðinn sem eru ekki síðri en fastar linsur og jafnvel betri sem í raun á ekki að vera hægt.

2) Framleiðendur eins og Canon og Nikon hafa gert samkeppnisaðilum á linsum oft erfitt fyrir með atriði eins og með stýringu á linsunni eins og á fókus sem er tölvustýrt frá myndavélinni.  Þegar hraði á fókus þarf að vera mikill eins og í fuglamyndatöku (skiptir ekki miklu máli í landslagsmyndatöku) að þá er oft vandamál með fókusinn.  Stundum þarf að fá hugbúnaðaruppfærslu á "firmware" í linsunum svo að þær tali rétt mál við myndavélina. Einnig er fókusmekkanisminn yfirleitt mun hægari á eftirlíkingum en Nikon og Canon eru að bjóða upp á en þó þarf það ekki alltaf að vera.

3) Þessar dýru linsur eins og frá Canon (með rauða hringnum) eru alvöru vinnuhestar sem atvinnuljósmyndarar eru að nota frá morgni til kvölds og gerðar til að þola alvöru meðferð. Eru oft með betri þéttingum gagnvart raka og ryki og glerin eru úr alvöru gleri en ekki einhverju plasti. Það er betra að eiga fáar og góðar linsur en margar lélegar. Góð linsa getur enst líftíma margra myndavéla svo að það er mjög mikilvægt að reyna að eignast fáar og góðar linsur en ekki eitthvað rusl sem maður verður aldrei ánægður.

4) Númer eitt er að linsa þarf að vera skörp, skörp og skörp. Fyrir leikmann getur oft verið erfitt að átta sig á slíku. Best er að taka nokkrar myndir á sambærilegar linsur, zooma inn á myndina (helst í Photoshop) og hreinlega bera saman (það geri ég). Linsa getur verið skörp í ákveðnu zoomi og ákveðnu ljósopi en svo ekki eins góð þegar stillingum er aðeins breitt. Einnig þurfa glerin inni í linsunni að vera 110% í plani svo að fókusinn sé réttur yfir allan myndflötinn. Yfirleitt eru linsur með mestu gæði og skerpu í kringum ljósop f8-f11 og á miðju zoomi.

5) Linsur eru mis bjartar (oft f2.8 - f22) og reyni ég að kaupa linsur sem hleypa sem mestu ljósi í gegn sem gefur þá minna suð í myndina og gefur því betur lýstar myndir í erfiðum birtuaðstæðum. En á móti kemur þá verða glerin mjög stór og linsurnar þungar. Það getur svo verið viss kostur því að þá eru myndir minna hreyfðar. (Þung myndavél og þungar linsur = minni titringur og því skarpari myndir). Allar zoom linsur sem að ég á eru með stærsta ljósopi f2.8 og sú besta sem að ég á er föst linsa er með ljósop f1.2 (enda notuð í norðurljósamyndatöku)! Því hærra sem neðra gildið er, því ódýrari er yfirleitt linsan en það þarf þó ekki alltaf að vera. En mikill aðdráttur veldur því sjálfvirkt að það er erfitt að halda þessu gildi lágu. Best er að það gildi sé ekki meira en 4 á víðum linsum og aðdráttalinsum ekki meira en 5.6. Fræðilega er mjög erfitt að vera með allt í sömu linsu, mikið zoom, létta linsu, mikla skerpu ....

6) Zoom linsa á helst ekki að vera með meiri Zoom stuðul en x3, hægt er að kaupa ódýrar zoom linsur t.d. 18-200 mm (f4.5-f8) og eru það venjulega algjört rusl, þó tókst kunningja mínum að finna eina flotta alhliða ferðalinsu frá Tokina sem að var mjög skörp yfir allt zoom sviðið en fókusinn var lélegur. Sviðið 18-200mm gefur margföldunarstuðul 200/18 ca. 11 sem er ALLT OF MIKIÐ og fræðilega getur sú linsa EKKI verið góð en fyrir fólk sem er ekki að leita eftir súper gæðum getur svona linsa verið alveg nóg.

7) Vignetering er vandamál sem hrjáir mikið víðar linsur, en það er ójöfn birtudreifing á ljósi sem fer í gegnum linsuna, oftast dökkt út við jaðrana og bjartast í miðjunni. Þetta er hægt að laga að vísu í RAW breyti sem fylgir t.d. Photoshop.

8) Einnig þarf að passa að það verði ekki litabjögun í linsum en það er mjög algengt í ódýrum zoom linsum sem hafa mikið svið. En það sést vel þegar farið er að skoða myndir að á jöðrunum þar sem farið er úr dökku yfir í ljóst eða öfugt að þar geta myndast allt að 3 (RGB rauður, grænn, blár) aðskildar línur og er það vegna þess að litirnir falla ekki 100% saman og ljósið hreinlega brotnar upp eins og þegar regnbogi myndast. En góðar linsur reyna að halda öllum 3um grunnlitunum saman í gegnum alla linsuna.

9) Best er að eiga fáar og góðar linsur. Ég á 16-35mm f2.8 (algjört must í landslag, byggingar ... mín uppáhald), 24-70mm f2.8 (fólk, landslag, flug, mjög góð alhliða linsa og sú sem ALLIR blaðaljósmyndarar eiga og nota mest) og svo 70-200mm f2.8 (flott í fólk, fugla, flug ...). Þetta eru allt "pró" linsur sem eru "mjög góðir einstaklingar". Þessar linsur til samans dekka vel sviðið frá 16-200 mm en mig vantar enn fasta 300 eða 400 mm linsu fyrir fuglamyndatöku og svo þori ég nú ekki að nefna stærri og dýrari linsur sem að ég læt mig bara dreyma um.
Einnig á ég fasta Sigma 20 mm f1.2 sem er æði í landslag og norðurljós og svo Canon margfaldara x1.3 og x2.0 sem auka aðdráttinn á öllum þessum linsum sem margfölduni nemur (en það er ekki raunhæft að nota meiri stækkun en x1.3). Einnig er ég með macro gler frá Canon sem ég skrúfa framan á 70-200 mm linsuna og er það ódýr lausn fyrir macro tökur.  En aðal málið er að engar tvær linsur eru eins og er mjög algengt að pró ljósmyndarar skili nýjum linsum sem þeir eru ekki ánægðir með. Hættan við að kaupa linsur hjá Adorama og B&H er að það geta verið linsur sem einhver er þegar búinn að skila því að viðkomandi var ekki ánægður með skerpu eða eitthvað. Því er oft betra að framkvæma slík kaup heima á Íslandi eða vera sjálfur á staðnum þarna úti í NY til að prófa linsuna í þaula.

10) Þar sem myndavélarnar tvær sem að ég nefndi í upphafi er með margföldunarstuðul x1.6, þá myndu allar linsurnar hliðrast, þannig að ef viðkomandi væri með mínar linsur á þeim vélum, þá fengist: (1,6 x linsa) 26-56 mm, 38 - 112 mm og svo 112 - 320 mm. Í því tilfelli myndi vanta tilfinnanlega linsu sem væri fyrir neðan 20mm. T.d. 12-24mm eru bornar saman hér:

http://www.kenrockwell.com/tech/digital-wide-zooms/comparison.htm

og þar kemur Tokina mjög vel út á eftir Nikon. En þessi er líka að koma vel út frá Sigma

http://www.fredmiranda.com/reviews/showproduct.php?product=184&sort=7&cat=37&page=1

en út af kroppfaktor x1.6 þá verður þetta eini möguleikinn til að fá linsu sem er nógu víð fyrir landslag, byggingar m.m.

Ef þessar linsur eru skoðaðar nánar, þá má sjá að þær eru báðar það sem kallað er DX linsur, en það eru linsur sem eru gerðar sérstaklega fyrir myndavélar með minni myndflögu (CCD sellu) og þá á bilinu x1.5 til x1.6. Er þá ekki hægt að nota slíka linsu á stafræna myndavél sem er með stærri myndflögu sem er t.d. 1:1 eða 24 x 36 mm eins og gamla filman er. Þetta gera framleiðendur til að hafa minni og léttari linsur.

11) Þessi vefur Fred Miranda er algjör gullnáma þegar skoða þarf gæði á ákveðnum linsur http://www.fredmiranda.com/reviews/ og málið er ekki flóknara en að skoða einkunnagjöfina sem linsurnar fá.
Einnig er dpreview að koma sterkur inn hvað linsur varðar og eru með mjög pró test á linsum http://www.dpreview.com/lensreviews/ en enn sem komið er, þá er svo lítið af linsum komið þar inn. En auðveldast er að googla linsunafnið og svo review á eftir og ath. stjörnugjöfina sem linsan er að fá og kommentin frá notendum og oft er að marka það sem þar er sagt

http://www.photozone.de/Reviews/overview/a>

http://www.kenrockwell.com/nikon/nikkor.htm

http://www.slrgear.com/reviews/index.php

12) Auðveldast er að fá að prófa þessar linsur, taka myndir með mismunandi stillingum (aðdrátt, ljósop) og ef þú treystir þér ekki til þess, þá að fá einhvern sem þekkir til til að gera slíkar prófanir fyrir þig. Ég spurði einn félaga minn sem er algjör nörd á þessu sviði oglíklega búinn að eiga eitthvað um 20-30 myndavélar og 50-100 linsur. En hann er ALDREI ánægður, enda best að kaupa eitthvað lítið notað af honum :)

13) En ég fékk fyrirspurn um Sigma 18-50 F/2,8 að fá 8,2 í einkunn sem er ekki slæmt, linsan er ódýr og hefur skemmtilegt svið og er lítil og nett og hefur svið á viðkomandi myndavél (x1.6) 29 - 80 mm

http://www.fredmiranda.com/reviews/showproduct.php?product=232&sort=7&cat=37&page=1

En það svið er fínt nema að linsan er EKKI víð þarft helst að fara niður í 20mm í neðri mörk. Mér lýst eiginlega betur á Tokina AF 11-16mm F/2,8 nema hún mætti hafa hærri efri mörk en á móti kemur að hún er með 2.8 í ljósop og lýst mér mun betur á þá linsu. Hún er mun dýrari og greinilega mun meira í lagt. En báðar þessar linsur eru DX linsur þannig að það er ekki hægt að nota þær á full frame vél sem er með CCD sellu 1:1 og því er ég aldrei að spá í slíkar linsur. Það er bara tímaspursmál hvenær menn fá sér myndavél með stærri CCD sellu og þá þarf að fara að hugsa allt linsusafnið upp á nýtt!

Ég sendi þennan texta á félaga minn og fékk strax svar frá honum. Þetta sagði hann (hann er pró hvað þetta varðar):

"En það er eitt með þessar Tokina víðlinsur.  Jæja allavega þá einu sem ég átti.  Hún var 12 24.  Mjög skörp linsa, vantaði ekkert á það en stór galli við hana var að það var svo mikið Cromatic abberations (held ég fari rétt með nafnið) þeas litabjögun þar sem mikill contrast var í myndinni.  Ég endaði á að skipta henni út.

En aftur á móti var ég mjög ánægður með Sigma 10 20.  Hún var skörp og ekki þetta vandmál til staðar, allavega ekki þannig að það tæki því að tala um það."

Svo mörg voru þau orð :)

Uff ... Nóg í bili, en eins og þið sjáið, þá er ómögulegt að svara svona spurningu í stuttu máli.

Í sumar var ég með stutt námskeið í ljósmyndun og þá reyni ég að útskýra þessi atriði hér fyrir þeim sem komu á námskeiðið og var eitt af vandamálunum á finna íslensk orð fyrir ensku orðin. Þó svo að ég skilji vel ensku orðin, þá vill það stundum vefjast fyrir manni að finna stutt íslensk orð sem ná að þýða það sama. En hér er smá tilraun:

Camera SystemUppbygging myndavélar
AD ConverterA/D breytir
AF Assist LampHjálparljós sjálfvirkur fókus
AF ServoElti - fókus
AutofocusSjálfvirkur fókus
BatteriesRafhlöður
BufferAukaminni
Burst (Continuous)Hröð myndataka
Color Filter ArrayLitafilter
ConnectivityTengimöguleikar
Effective PixelsRaun-punkta-upplausn
EXIFMyndaupplýsingar
Fill FactorNæmnishlutfall
FirmwareHugbúnaðaruppfærsla myndavélar
Lag TimeTökutími
LCDLCD skjár
Manual FocusHandvirkur fókus
MicrolensesSmálinsur
PixelsPunktar
Pixel QualityPunktagæði
SensorsNemi/skynjari
Sensor LinearityLínuleiki nema/skynjara
Sensor SizesStærð nema/skynjara
Storage CardMinniskort
Thumbnail IndexSmámyndayfirlit
Viewfinderx


Digital ImagingStafræn myndataka
AliasingPunktaröðun
ArtifactsMýking á punktaröðun
BitsBitar
BloomingFlæði
Color SpacesLitakerfi
CompressionPökkun
Digital ZoomStafrænn aðdráttur
Dynamic RangeLitavídd
GammaLínuleikakúrfa
HistogramPunktagreining myndar
InterpolationFramreikning stækkun á mynd
JaggiesTröppuform á punktum
JPEGMyndapökkunarform
MoiréMynstur suð
NoiseSuð í mynd
Noise ReductionMinnkun á suði í mynd
PosterizationLitafækkun
RAWÓunnið myndaform
ResolutionUpplausn
Sensitivity (ISO)Næmni
SharpeningSkerpun
TIFFTIFF myndaformat
Tonal RangeTónaupplausn
White BalanceLitahitastig


ExposureLæsing á lýsingu
AE LockPunktaröðun
ApertureLjósop
Aperture PriorityForgangur á ljósop
Auto BracketingSjálfvirk lýsing
ExposureLýsing
Exposure CompensationLeiðréting á lýsingu
Flash Output CompensationLeirétting á lýsingu með flassi
ManualHandvirkar lýsingastillingar
MeteringLjósmæling
Remote CaptureFjarstýring
ShutterspeedLokuhraði
Shutter PriorityLokuhraði með forgang
Time LapseSjálfvirk myndataka


OpticalLjósmyndafræði
Anti-shakeHristivörn
Aspect RatioMyndahlutfal/form
Barrel DistortionBjögun
Chromatic AberrationLitaskekkja í glerjum
Circle of ConfusionStækkunargæði
ConvertersMillistykki
Depth of FieldFókus dýpt
Focal LengthFókus punktur
Focal Length MultiplierNýtingarstuðul á linsu
Image StabilizationHristivörn
LensesLinsur
MacroMacro eða nærmyndataka
PerspectiveFjarlægðardýpt
Picture AngleSjónarvinkill linsu
Pincushion DistortionFormbjögun
Subject DistanceFjarlægð á myndefni
VignettingLýsingarskekkja í linsum


StorageGeymslumiðlar
Storage ComparisonSamanburður
Storage IssuesAfritunarsjónamið
Magnetic Storage - Hard disksSegulgeymslumiðlar
Optical Storage - CDs and DVDsLjósgeymslumiðlar


Ofan á þetta bætist svo allt sem viðkemur myndatökutækni, val á myndefni, lýsing og fl ...

Kjartan
WWW.PHOTO.IS


mbl.is Leica státar af stærsta ljósopinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó Már Marinósson

Þetta er virkilega flottar upplýsingar hjá þér. Takk fyrir að fræða okkur um þetta.

Bloggið þitt er að verða hafsjór af fróðleik

Marinó Már Marinósson, 20.9.2008 kl. 14:22

2 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Takk fyrir Marinó.

Ég lærði af föður mínum að það margborgar sig að gera hlutina vel STRAX í upphafi frekar en að vera stöðugt að laga það sem er illa gert. Svo er viss kostur að geta blandað saman áhugamáli og vinnu þegar svo ber undir. Varðandi mynda- og ferðabloggið, þá er þetta fín leið til að viðhalda þekkingunni sem leiðsögumaður.

En í raun er upphaf á þessu bloggi allt annað og mun alvarlegra - því miður.

Kjartan Pétur Sigurðsson, 20.9.2008 kl. 15:40

3 Smámynd: Pálmi Guðmundsson

Sæll og takk fyrir þetta. Þeir sem vilja svo enn meiri fróðleik, þá má benda á vefsíðuna www.ljosmyndari.is  en þar eru í boði mörg og spennandi ljósmyndanámskeið, bæði fyrir byrjendur og lengra komna.

Pálmi Guðmundsson, 20.9.2008 kl. 15:59

4 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Þetta er víst þín sérgrein Pálmi, enda orðin sjóaður í þessum fræðum. Ég mæli hiklaust með þessari síðu sem hefur reynst mér vel:

http://www.ljosmyndari.is/smaauglysingar.htm

Kjartan Pétur Sigurðsson, 20.9.2008 kl. 16:04

5 Smámynd: Ása Hildur Guðjónsdóttir

Takk fyrir fróðlega grein eins og alltaf

Ása Hildur Guðjónsdóttir, 20.9.2008 kl. 17:34

6 identicon

Takk fyrir þetta Kjartan þetta blog þitt er langt komin í það að vera stofnun.

Kveðja Frá klakanum

Vilbogi Magnús Einarsson (IP-tala skráð) 20.9.2008 kl. 19:42

7 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Takk Ása fyrir innlitið.

Spurning hvenær þeir fara að setja þessa stofnun á fjárlög Vilbogi :)

Kjartan Pétur Sigurðsson, 20.9.2008 kl. 20:16

8 Smámynd: S. Lúther Gestsson

Vááá, og ég sem var búinn að telja mér trú um að myndavélin sem ég var að fá mér væri aldeilis fín. SONY A-350 að vísu með original linsu en það tekur því varla að fá sér aðra á þessa vél.

S. Lúther Gestsson, 20.9.2008 kl. 21:38

9 Smámynd: Lára Stefánsdóttir

Frábært að sjá svona skrif, kærar þakkir fyrir þau. Gott að fá þýðingu á orðum, ég lendi einmitt oft í vandræðum með það. Ég velti fyrir mér við lesturinn hvaða Canon myndavél þú ert með sjálfur. Ég er sammála þér að L linsur frá Canon breyta gríðarlega miklu í tökunni og miklu betra að eiga fáar linsur en mjög góðar.

Annað sem ég hef verið að skoða og velta fyrir mér er dmax eða hversu mikil smáatriði vélin nær í skuggum og bjartasta hlutanum (hversu mörgum tónum). Ég var að skoða það fyrir mína vél 5D og var nokkuð sátt en velti fyrir mér á sama tíma hvaða Canon vél væri með hæstu dmax gildin. Ef þú hefur velt því fyrir þér væri gaman að heyra af því.

Lára Stefánsdóttir, 20.9.2008 kl. 22:57

10 Smámynd: gudni.is

Takk fyrir þetta Kjartan. Þetta eru virkilega fínar upplýsingar hjá þér og gagnast vonandi sem allra flestum.

Kveðja, Guðni

gudni.is, 20.9.2008 kl. 23:49

11 identicon

Takk fyrir mjög fróðlega grein, sérstaklega orðasafnið

Langar samt til að mæla með 18-200 VR linsunni frá Nikon sem alhliða ferðalinsu. Er líka alger snilld í að mynda motocrossið sem ég mynda mjög mikið, þar sem maður vill bæði getað zoomað og náð víðum myndum. Þetta væri annars ekki hægt nema að vera með 2 mynadvélar með sitt hvorri linsunni því ekki er maður að skipta um linsur í rykmekki og drulluaustri sem gjarnan fylgir motocrossinu

Lolla (IP-tala skráð) 21.9.2008 kl. 02:39

12 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Takk Erlingur fyrir Innlitið.

S. Lúter, Sony-A350 er að fá topp dóma á dpreview svo að þú þarft ekki að hafa neinar áhyggjur þessari vél. Eða eins og þeir segja, þá er vélin að koma best út úr samanburði í sínum flokki og þar voru ekki minni vélar en Canon 450 ... (er enn að vinna í klukkinu, tapaði því sem að ég var búinn að gera ... :( )

Lára, það er nú ekki víst að orðin séu öll rétt þýdd hjá mér og væri gott að fá skoðanir frá lesendum hvað það varðaði, átti svo sem von á því að einhverjir íslenskufræðingarnir kæmu hér alveg ... og myndu leiðrétta annað hvert orð :)

Ég er sjálfur að nota Canon 1DS Mark II og er sú vél algjör vinnuhestur og stendur betur fyrir sínu en flestar þó svo að hún sé orðin 2ja ára gömul. Hún er með "full frame CCD" eða myndflögu (17 mpix) sem er í fullri stærð og því nýtast linsurnar að fullu og gerir að sama skapi meiri kröfur til að þær séu alveg 100% út í jaðrana.

Dmax er gríðarlega mikilvægt í myndatöku og jafnvel meira mikilvægt í dag en upplausn á mynd. Til að útskýra það nánar, þá er líklega best að skoða hvernig hið fullkomna mannsauga virkar, en það er með það sem kallað er ólínulega (logaritmíska) næmni gagnvart breytingum á ljósi og hefur því gríðarlega góða eiginleika og getur til að nema ljós sem er bæði mjög dauft upp í það að vera 1.000.000 sinnum eða meira af styrk í einni og sömu myndinni (eyrað er búið svipuðum eiginleikum gagnvart hljóði). Fyrir venjulega CCD myndflögu, sem er með línulega næmni (8 -14 bita), að þá er það nánast ógjörningur að endurskapa myndina yfir allt birtusviðið þegar svo háttar til. Dæmi um slíkt er þar sem eru miklir skuggafletir samtímis því að sól er beint á móti í sömu mynd. Í ódýrum stafrænum myndavélum (oft með litla CCD sellu) geta skuggarnir einfaldlega orðið svört klessa og sólin hvít klessa í myndinni með engum "details" (upplýsingum) eða smáatriðum nema í millitónum sem liggja þar mitt á milli.

Talað er um að myndavél eða skanner hafi ákveðið "Dynamic Range". Það segir til um getu eða eiginleika eða næmni tækisins til að nema ljós með ákveðinni upplausn. Því hærra gildi því betra.

Með ljósmæli "optical densiometers" er hægt að mæla "Image density" í mynd. Bjartasti hluti myndarinnar er 0 sem er hreinn hvítur litur og dekksti hluti myndarinnar er mjög svart sem er 4. Þar sem styrkbreytingar eru svo gríðarlegar frá því að fara beint úr skugga yfir í að horfa beint upp í sólina, þá þarf nema sem er ólínulegur (logarithmic scale) ekki ósvipað og þegar verið er að mæla jarðskjálfta (Richter Scale). T.d. er density með gildið 3.0 tíu sinnum meira en density af gildinu 2.0 þó svo að línulegur mismunur sé aðeins 1!

Það hafa verið farnar ýmsar leiðir hjá framleiðendum til að auka "Dynamic Range" á stafrænum myndavélum. Fuji kom með CCD sellu sem var með 2 nemum, eina tegund fyrir sterkt ljós og aðra fyrir dauft ljós. En því miður var það ekki að skila neinum afgerandi gæðum umfram það sem til var fyrir. Það var ekki fyrr en með tilkomu CMOS myndflögunar að betri birtunæmni fór að fást og fólst það að einhverju leiti í því að næmni myndflögunar hagaði sér meira eins og mannsaugað þ.e. næmnin er ólínuleg. Gamlir karlar úr tónlistabransanum þekkja þetta fyrirbæri vel, en þeir segja að gamlir lampamagnarar séu bestu gítarmagnararnir en það er einfalldega út af því að í þeim eru lampar sem eru með ólínulega mögnun og mögnunarsviðið frá því að vera nánast ekki neitt upp í 100% styrk ÁN ÞESS AÐ BJAGA MERKIÐ" á meðan nútíma transistormagnarar eru fljótir að bjaga sama merk! En transistorin er línulegur og hentar í raun mjög illa í að magna upp ólínulegt (logaritmískt) merki ... sama gildir með stafrænar myndavélar.

Framleiðendum hættir alltaf til að nota betri gildin í auglýsingum og er DMax dæmi um slíkt og er þá ekki nema hálf sagan sögð. En "Dynamic Range" er í raun mun mikilvægari tala en hver stafrænn skanner og myndavél hafa uppgefin DMin og DMax sem gætu verið 0.2 og 3.1 en það gefur "Dynamic Range" eða mismun upp á 2.9!

En hvers vegna er 36 bitar betri en 24 bitar?

Upphaflega var allur hinn stafræni heimur að mestu 8 bitar (10101010) sem gefur 256 möguleika. En okkar ljósheim er skipta niður fyrir hinn stafræna heim í rauðan, grænan og bláan (RGB) og hafa menn valið að skilgreina rauða litinn sem 8 bita og sama fyrir hina 2 litina en til samans gefur það 8+8+8 eða 24 bita litaupplausn á myndina (16,777,216 liti (256 × 256 × 256 möguleika) en mannsaugað nemur víst ekki nema eitthvað um 5.000 liti ef mig minnir rétt).

Myndavélaframleiðendur hafa verið að auka þetta til muna (þeir bestu eru með 14 bita) til þess eins að auka "Dynamic Range" og ná þar með að búa til myndir sem komast sem næst því sem mannsaugað sér.

Hér áður fyrr voru notaðir skynjarar í hágæða skanna sem kallaðir eru Photomultiplier

http://en.wikipedia.org/wiki/Photomultiplier

En það var toppurinn í skönnum í gamla daga. Aðal ástæðan var sú að þeir voru með lampaljósmagnara sem gátu numið nánast allt, sama hver styrkurinn var á því sem verið var að skanna, ekki ósvipað og með gömlu gítarmagnaranna! Flottast hefði verið að fá stafræna myndavél sem hefði slíkan ljósnema :)

En nýjasta myndavélin frá Nikon D700 er komin með gríðarlega ljósnæmni (super-high 12,800 til 25,600 ISO) og fer að líða að því að það þurfi ekki flass lengur í venjulegar myndatökur :)

En að grunninum til er málið ekki flóknara en það að vera með bjarta linsu (ljósop ca. 1), stóra CCD sellu 24 x 36 mm eða stærra, og svo eitthvað af þessum nýju CCD CMOS sellum og nýjustu stafrænu örgjörfana sem eru í nýjustu myndavélunum í dag.

Til að losna við allan þennan kostnað, þá má fá sér þrífót og taka margar myndir (HDR) og setja þær saman í Photoshop eða Photomatrix Pro eða einhverju sambærilegu :)

Dæmi um HDR mynd sem er nánast ómögulegt fyrir venjulega stafræna mynd að taka er þessi hér:

Kjartan Pétur Sigurðsson, 21.9.2008 kl. 07:22

13 Smámynd: Kári Harðarson

Kærar þakkir fyrir fræðandi lestur !  Ég ætla að leika mér aðeins með HDR, það lítur spennandi út.

Ég ætlaði að kaupa nýja vél í haust en það er svo margt á PhotoKina að ég get ekki ákveðið mig.  Gamla vélin mín Canon D-300 Rebel var ágæt en nú vil ég fá minni vél sem er með stabilizer linsu og getur tekið kvikmyndir.

D90 vélin nýja frá Nikon getur tekið kvikmyndir:  http://www.dpreview.com/previews/nikond90/

Nýja Micro 4:3 linsukerfið frá Panasonic / Olympus freistar því vélarnar verða litlar.  Fyrsta vélin fyrir kerfið getur samt ekki tekið kvikmyndir:  http://www.dpreview.com/previews/PanasonicG1/

Sá á kvölina...

Kveðja, Kári

Kári Harðarson, 24.9.2008 kl. 09:17

14 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Sæll Kári,

Þessi stafræni heimur er orðin flókin og ekki auðvelt að velja myndavél í dag. Maður má hafa sig allan við til að ná að fylgjast með öllum þeim nýjungum sem bókstaflega rignir yfir neytendur. Það eru líklega slatti af stafrænum myndavélum sem koma út í hverjum mánuði og þetta dót er fljótt að verða úrelt - því miður.

Svo er annað mál að videomyndavélin og ljósmyndavélin er líklega að renna saman í eina og sömu vélina. Einnig er sífellt verið að koma nýir og öflugri staðlar á markaðinn. Ég sjálfur hef ekki lengur tölu á því hvað ég er búinn að eiga margar myndavélar, bæði stafrænar og filmuvélar.

En mér lýst vel á "live view" möguleikann á þessum nýju SLR vélum, enda látið mig dreyma um slíka vél og þá festa eina slíka á vænginn hjá mér á mótordrekanum og geta svo fjarstýrt vélinni og horft á skjá eða litla ferðavél.

Kjartan Pétur Sigurðsson, 24.9.2008 kl. 11:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband