Hreindýr á Íslandi - Myndir úr veiðiferð

Í september mánuði 2005 brugðum við Árni Gunnarsson og undirritaður í ævintýralega ferð á fisi austur á land. Tilgangur ferðarinnar var að leita af hreindýrum úr lofti fyrir Veiðifélagið Sósuna sem var með leyfi til að veiða á svæði 5 (Fjarðabyggð, þ.e. Eskifjörður, Norðfjörður og Reyðarfjörður). Svæðið er mikið fjallendi og erfitt yfirferðar.

Hér er verið að fara yfir kort af svæðinu í upphafi ferðar með Sævari Guðjónssyni leiðsögumanni (Sæsi gikkur) sem býr á Mjóeyrir á Eskifirði.

félagar úr Veiðifélaginu sósan skoða kort af svæðinu (klikkið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Hér er lent því að hleðsluljósið var ekki að virka og kom í ljós að ljósaperan var farin. Á myndinni má sjá Jónas, Sjonna og Ármann og vantar Árna flugmann inn á myndina og Sævar leiðsögumann.

félagar úr Veiðifélaginu sósan við skilti sem vísar veginn í Vaðlavík og Karlsskála (klikkið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Hér er horft niður í Vaðlavík

Leiðin niður í Vaðlavík (klikkið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
"Vöðlavík eða Vaðlavík er vík norðan Reyðarfjarðar, milli Múla og Gerpis. Í Landnámu segir að Þórir hinn hávi hafi búið í víkinni, en hún hét Krossavík fram á 17. öld. Í Vopnfirðinga og Kristni sögur geta þess að Þorleifur Ásbjarnarson hinn kristni hafi búið í víkinni. Til Vöðlavíkur var ruddur vegur fyrir 1940 sem síðar var lengdur til Viðfjarðar og nýttist áður en Oddsskarðsvegur var byggður. 10. janúar 1994 strandaði skipið Goði í víkinni og bjargaði þyrlusveit Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli skipverjum. Einn fórst við strandið. Úr víkinni og heiðinni, Vöðlavíkurheiði, eru tveir fjallstindar einna mest áberandi: Snæfugl og Hestshaus."

Seinna um daginn er komið þar sem vegurinn endar við bæinn Viðfjörð við Viðfjarðarströnd í Viðfirði þar sem Viðfjarðará rennur um Viðfjarðarós (Hvað eru mörg við í því)! Yfir Viðfjarðará hefur verið reist þessi myndalega hengibrú þar sem byggt hefur verið upp myndalegt æðarvarp.

Bærinn Viðfjörður við Viðfjarðarós (klikkið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Viðfjörður er fjörður á Austfjörðum í Suður-Múlasýslu og gengur suður úr Norðfirði. Í Viðfirði er samnefnt eyðibýli, en það fór í eyði skömmu eftir 1950. Á bænum er sagt að hafi verið reimt öldum saman og á öðrum fjórðungi síðustu aldar gengur draugar þar ljósum logum, leystust upp í eldglæringum, tóku fyrir kverkar fólki og gerðu mönnum hvers konar skráveifur aðrar.
Í Viðfirði er Dr. Björn Bjarnason fæddur. Hann var kunnur rithöfundur og fræðimaður. Hlaut hann doktorsnafnbót fyrir rit sitt um íþróttir fornmanna á Norðurlöndum, þýddi fjölda rita, samdi eða sá um útgáfur annarra.

Það eru ýmsar aðferðir til að hlúa að æðavarpinu og hér hafa menn brugðið á það ráð að útbúa skýli í kross til að verja æðarfuglinn fyrir veðri og utanaðkomandi vá.

Skýli fyrir æðarfuglinn á tanganum við Viðfjarðarós (klikkið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Hér lenda Árni og Sævar leiðsögumaður eftir að hafa kannað svæðið úr lofti. Einu dýrin sem fundust voru í Sandvík og þangað er varla fært nema fuglinum fljúgandi :)

Árni og Sævar leiðsögumaður við bæinn Viðfjörð (klikkið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Eftir stutta rekistefnu, þá var ákveðið að Árni myndi fljúga með veiðimennina yfir í Sandvík og lenda þar í fjörunni. En dýrin sem sáust úr flugferðinni sáust síðast við Gerpiskoll í Sandvík.

Hér eru félagarnir sestir upp í fisið með allar græjur og tilbúnir fyrir flugtak

Árni og Sævar leiðsögumaður undirbúa sig fyrir ferð í Sandvík (klikkið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Því miður fór annað hjól flugvélarinnar ofan í holu í flugtaki og slitnaði stífa sem hélt við dekkið. Þetta breytti öllum áformum um frekara flug í Sandvíkina og fór smá tími í að laga festinguna aftur.

Hér má sjá stífu sem gaf sig (klikkið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Ekki var annað í stöðunni en að gera við vélina með því sem tiltækt var á staðnum. Síðan héldum við Árni í loftið og var þá stefnan tekin norður og leituðum af hreindýrum í leiðinni. Stuttu seinna fundum við hóp af hreindýrum sem voru uppi við fjallstopp rétt fyrir neðan skýjabakkann á stað sem nefnist Kvígindisdalur. Eftir fundin var flogið í kaffi til fisfélaga sem býr á Norðfirði.

Sósumenn héldu fótgangandi við erfiðara aðstæðu á staðinn sem við vísuðum á og náðist eitt dýr og voru þeir ekki komnir í hús fyrr en seint um nóttina eftir erfiðan dag.

Ef vel er skoðað, þá má sjá hreindýr fyrir miðri mynd (klikkið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Hér er svo kort af veiðisvæðinu þar sem sjá má firðina Norðfjörð, Hellisfjörð, Viðfjörð, Sandvík, Vöðlavík og Reyðarfjörð

Firðirnir Norðfjörður, Hellisfjörður, Viðfjörður, Sandvík, Vöðlavík og Reyðarfjörður (klikkið á mynd til að sjá fleiri myndir)


Kjartan
WWW.PHOTO.IS

mbl.is Sterkur grunur leikur á berklasmiti í hreindýri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flottar myndir úr veiðiferðinni. Vonandi leggst ekki berklafaraldur á hreindýrin okkar. Ætli þetta hreindýr hafi farið of nálægt starfsmönnum Kárahnjúka?

Stebbi (IP-tala skráð) 15.8.2007 kl. 12:34

2 identicon

Flottar myndir.  Veiðifélagið Sósan verður aftur á ferð á svæði fimm um n.k. mánaðamót.  Í þetta sinn verður farið akandi.  Myndir úr fleiri ferðum er að finna á http://www.veidifelagidsosan.com

Jonas (IP-tala skráð) 15.8.2007 kl. 18:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband